Innlent

Viðbúnaðarstig hækkað hér á landi ef fuglaflensuveiran berst til Bretlands

Halldór Runólfsson yfirdýralæknir segir viðbúnaðarstig hér á landi verða aukið ef H5N1 gerð fuglaflensuveirunnar berst til Bretlands. Rannsóknarstofa Evrópusambandsins í Surrey á Englandi hefur staðfest að svanur, sem fannst dauður í höfninni í Cellardyke norður af Edinborg í Skotlandi fyrir átta dögum, var með H5N1 fuglaflensuveiru.

Til þessa hefur ekki verið talin mikil hætta á að fuglaflensuveiran af gerðinni H5N1, bærist hingað til lands en fréttirnar frá Bretlandi breyta því. Í viðbragðsáætlun yfirvalda er miðað við að mikil hætta sé á að veiran berist hingað, hafi hún á annað borð greinst á  Bretlandi þaðan sem flestir farfuglarnir koma.

Tæplega 200 manns hafa veikst af völdum H5N1 og þar af hafa liðlega hundrað látist, flestir í Asíu. Í öllum tilvikum hefur fólkið meðhöndlað eða komist í snertingu við sýkta alifugla en ekki er vitað til þess að neinn hafi smitast af farfuglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×