Innlent

Tvöfalt fleiri ungir karlmenn vinna í félagsþjónustu

MYND/Gunnar V. Andrésson

Fjöldi ungra karlmanna sem vinna á leikskólum, félagsmiðstöðvum og grunnskólum hefur ríflega tvöfaldast frá árinu 2000. Byggingarvinnan er samt vinsælust hjá ungu körlunum en konur undir þrítugu eru helst í félagsþjónustu.

Atvinnuþátttaka karla undir tvítugu minnkar um 9 prósent og helst það í hendur við aukinn fjölda stráka sem fara beint í framhaldsskóla en um 94 prósent sextán ára unglinga sóttu framhaldsskóla í fyrra. Þegar litið er á karlmenn undir þrítugu er hlutfallið þeirra sem er á vinnumarkaði hið sama og það var árið 2000.

Flestir vinna þeir í byggingarvinnu enda hefur störfum í byggingargeiranum fjölgað um 28% í byggingasprengju undanfarinna ára. Ungum karlmönnum hefur samt ekki fjölgað svo mjög þar sem innflutt vinnuafl vegna þessara starfa er að mestu leyti eldra en þrítugt. Konurnar á sama aldri, undir þrítugu, vinna flestar við félagsþjónustu án dvalar, þ.e. á félagsmiðstöðvum og leikskólum.

Athygli vekur að ungir karlar sækja í auknum mæli í þessi störf í félagsgeiranum, sem og í grunnskólana og hefur fjöldi ungkarla í þeim störfum rúmlega tvöfaldast frá árinu 2000.

Önnur vinsælasta atvinnugreinin hjá fólki yngra en þrítugu eru störf í matvöruverslunum og stórmörkuðum og í þriðja sæti eru störf á veitingastöðum og á skemmtistöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×