Innlent

Gísli Tryggvason stefnir í 2. sæti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Gísli Tryggvason hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar vorið 2007.

 

Gísli hefur gegnt embætti talsmanns neytenda síðan það var sett á fót um mitt ár 2005. Áður var Gísli framkvæmdarstjóri og lögmaður Bandalags háskólamanna í tæp 7 ár og hefur hann einnig starfað sem blaðamaður, segir í tilkynningu frambjóðandans.

 

Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á vegum Framsóknarflokksins á undanförnum 10 árum og á meðal annars sæti í miðstjórn. Gísli lauk embættisprófi í lögum frá Háskóla Íslands 1997 og MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2004. Hann hlaut réttindi sem héraðsdómslögmaður 1998.

 

Gísli er 37 ára gamall, fæddur í Björgvin í Noregi en alinn upp á Akureyri. Hann er stúdent frá Marie Kruses Skole í Farum í Danmörku og hefur verið búsettur í Kópavogi frá lokum árs 2000. Gísli er kvæntur Brynju Daníelsdóttur, hjúkrunarfræðingi og sjúkranuddara. Þau eiga þrjú börn.

 

Gísli var ritstjóri Úlfljóts, tímarits laganema, árið 1994 og sat í stjórn Orators, félags laganema. Gísli starfaði með Röskvu, samtökum félagshyggjufólks í Háskóla Íslands.

 

Af helstu baráttumálum Gísla í fyrri trúnaðarstörfum má nefna jafnræði í lífeyrismálum, bætta stöðu skjólstæðinga Lánasjóðs íslenskra námsmanna, nýtt fæðingarorlofskerfi karla og kvenna og endurskoðun verðtryggingar lána.

 

Þá segir í tilkynningu Gísla, að nái hann kjöri á Alþingi muni hann áfram leggja áherslu á hagsmuni og réttindi launafólks og neytenda svo og raunverulega valkosti í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu og gagnsæi í viðskiptum. Í samræmi við 90 ára sögu Framsóknarflokksins mun Gísli einnig freista þess að stuðla að auknu jafnrétti, skýrara hlutverki hins opinbera, öflugu starfi almannasamtaka og bættum aðstæðum fjölskyldufólks, segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×