Innlent

Enginn hvalur enn

Hvalur 9.
Hvalur 9. MYND/Gunnar V. Andrésson

Hvalstöðin í Hvalfirði er ekki með vinnsluleyfi til að verka hvalkjöt. Stefnt er að því að leysa það mál áður en Hvalur 9 kemur að landi með fyrsta hvalinn til vinnslu. Engar fregnir hafa enn borist af veiði.

Hvalur 9 kom á miðin síðdegis í dag og er nú staddur um eitt hundrað mílur vestur af Snæfellsnesi, kominn langleiðina að miðlínu við Grænland. Gervihnattasamband lá niðri lengi dags, en Kristján Loftsson, stjórnarformaður Hvals hf. sagði nú rétt fyrir fréttir að samkvæmt hans bestu vitneskju hefði skutli ekki verið skotið í hval ennþá.

Eftir að hvalur hefur verið veiddur, má það ekki taka meira en sólarhring að koma honum í vinnslu ef kjötið á að vera hæft til neyslu. Sem stendur er Hvalur 9 15-17 tíma stím frá stöðinni í Hvalfirði. En hvað gerist þegar komið er í land?

Áður en umbætur hófust á hvalstöðinni í Hvalfirði hófust fóru tveir dýralæknar frá Landbúnaðarstofnun og tóku stöðina út, að beiðni Hvals hf., en embætti yfirdýralæknis heyrir undir Landbúnaðarstofnun. Dýralæknarnir mátu aðstæður svo að skilyrði fyrir vinnsluleyfi á hvalkjöti til manneldis væru ekki uppfyllt í stöðinni. Síðan hafa miklar umbætur verið gerðar á stöðinni, segir Kristján Loftsson. Hann segir einnig að honum hafi borist bréf frá Landbúnaðarstofnun eftir úttekt dýralæknanna, þar sem sagði að hvalkjötvinnsla og leyfi fyrir henni væru ekki á hennar könnu. Kristján segist hafa vottorð frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og telur því öll leyfi fyrir hendi, enda verði öll vinnsla eins og áður tíðkaðist.

Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir, var kallaður á fund í sjávarútvegsráðuneytinu í dag. Björn Friðrik Brynjólfsson, aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra, sagði það rétt að nokkur lagaóvissa ríkti um hver ætti að veita starfs- og vinnsluleyfið en stefnt væri að því að finna lausn áður en Hvalur 9 kemur í land með kjöt til verkunar. Ekki náðist í yfirdýralækni eftir fundinn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×