Innlent

Hafna rannsóknarnefnd að norskri fyrirmynd

Forsætisráðherra sagði það stóralvarlegt öryggismál sem þyrfti að rannsaka ef erlendur aðili hefði staðið fyrir hlerunum á símum ráðherra. Hann sagði það hins vegar ófyrirgefanlega aðdróttun að bera á samstarfsráðherra úr öðrum flokkum að þeir hefðu staðið fyrir slíku athæfi. Þetta kom fram í snörpum umræðum um hlerunarmál á Alþingi í dag.

Formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hvatti til þess að farin yrði svipuð leið hérlendis og í Noregi þegar hlerunarmál voru rannsökuð þar og spurði dómsmálaráðherra hvort hann vildi beita sér fyrir slíku. Björn Bjarnason taldi þau mál sem upp komu í Noregi ekki sambærileg og taldi því ekki rétt að fara þá leið.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, fór hann fram á það að forystumenn flokkanna hittust á næstu dögum til að fara sameiginlega yfir þessi mál og tók undir kröfu um rannsóknarnefnd eins og í Noregi. Forsætisráðherra sagði að tvö mál á ferðinni, annarsvegar kaldastríðstímabilið, og hins vegar ný, mál sem komið hefðu upp á síðustu dögum, og taldi bæði komin í eðlilegan farveg, síðast með ákvörðun ríkissaksóknara í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×