Erlent

Norður Kóreumenn gerðu tilraun með kjarnavopn í morgun

Suður Kóreubúar horfa á útsendingu frá kjarnorkutilraun Norðanmanna á lestarstöð í Seoul.
Suður Kóreubúar horfa á útsendingu frá kjarnorkutilraun Norðanmanna á lestarstöð í Seoul. MYND/AP

Norður Kóreumenn sprengdu kjarnorkusprengju neðanjarðar í norðurhluta landsins klukkan rúmlega 1:30 að íslenskum tíma, þrátt fyrir hörð mótmæli alþjóðasamfélagsins.

Norður Kóreska ríkisfréttastofan hefur tilkynnt að kjarnorkutilraunin hafi gengið vel og að ekki hafi orðið vart við leka á geislavirkum efnum.

Suður-Kóreskur embættismaður sagði að skjálfti upp á þrjá komma sex á richter hefði mælst klukkan rúmlega hálf tvö að íslenskum tíma. Hann hafi ekki verið af eðlilegum orsökum.

Kallað hefur verið til neyðarfundar hjá þjóðaröryggisráði Suður Kóreu og herafli landsins settur á hæsta viðbúnaðarstig.

Í gær tilkynntu ríkisstjórni Kína og Japan að löndin myndu ekki þola slíka tilraun.

Bandarísk herflugvél sem búin er sérstökum geislavirkni-mælibúnaði sást fara frá herflugvelli í Japan eftir að tilkynnt var um tilraunina. Japanskar herflugvélar fóru einnig á loft frá Okinawa eftir tilkynninguna.

Norður Kóreumenn sögðu tilraunina sögulega og hún hafi fært þjóðinni og hernum gleði. Hún myndi stuðla að friði og stöðugleika á Kóreuskaga og nágrenni.

Norður Kóreumenn drógu sig út úr milliríkjasamkomulagi um takmörkun á útbreiðslu kjarnorkuvopna árið 2003 eftir að bandarískir embættismenn ásökuðu þá um leynilega kjarnorkuáætlun, í trássi við samkomulag milli landanna. Norður Kóreumenn hafa neitað að taka þátt í viðræðum síðast liðið ár sem stuðla áttu að því að fá þá til að hætta við tilraunina.

Forsætisráðherra Japan fór til Suður Kóreu til viðræðna við ráðamenn þar vegna sprengjunnar. Bandaríkjamenn hafa ekki brugðist við opinberlega, en í síðustu viku sagði Christopher Hill, fulltrúi Bandaríkjamanna í samningaviðræðunum, að Norður Kórea yrði að velja á milli þess að eiga kjarnavopn, eða framtíð, það gæti ekki átt bæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×