Erlent

Kjarnorkutilraun mun breyta 21.öldinni

Suður Kóreumenn mótmæla fyrirhuguðum kjarnorkutilraunum Norðanmanna.
Suður Kóreumenn mótmæla fyrirhuguðum kjarnorkutilraunum Norðanmanna. MYND/AP

Framkvæmi Norður Kóreumenn kjarnorkutilraunir mun það breyta 21. öldinni eins og við þekkjum hana segir Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Hann segir það sýna gagnleysi og veikleika alþjóðasamfélagsins ef Norður Kórea framkvæmir tilraunirnar og þess yrði þá ekki langt að bíða að önnur lönd komi sér upp kjarnavopnum.

Ekki er vitað hvenær Norður Kóreumenn framkvæma tilraunina en búist er við að það geti orðið um helgina. Þeir eru taldir eiga efni í sex kjarnorkusprengjur.

Bandarísk herflugvél búin sérstökum geislunar-mælibúnaði og getur tekið sýni til rannsóknar á flugi, er í Japan vegna hættunnar. Hún er staðsett í Bandarísku herstöðinni í Okinawa og fór í eftirlitsflug í gær.

Fyrrum aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna Wendy Sherman sagði að Norður Kórea hefði engu að tapa með kjarnorkutilraun. Afleiðingarnar yrðu líklega skammlífar og eftir tilraunina hefði Norður Kórea sterkari stöðu á alþjóðavettvangi sem kjarnorkuveldi. Sherman sagði að öll mál af þessu tagi hefðu orðið erfiðari og torleystari síðan Bush Bandarikjaforseti hóf stríðið gegn hryðjuverkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×