Innlent

Vernharð Guðnason vill 6. sæti hjá Sjálfstæðisflokki

Vernharð Guðnason
Vernharð Guðnason MYND/frtlk

Vernharð Guðnason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS), sækist eftir 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 27. og 28. október vegna þingkosninganna í vor. Vernharð er 44 ára, kvæntur og þriggja barna faðir. Samhliða starfi sínu sem formaður LSS starfar hann sem slökkviliðsmaður og bráðatæknir hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS).

Vernharð segir í fréttatilkynningu, að reynsla sín af því að vera í forystu fyrir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn í landinu og gæta hagsmuna þeirra í víðum skilningi, ekki síst í kjarabaráttu, muni nýtast vel í stjórnmálastarfi. Hann telur brýnt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fólk með reynslu af félags- og kjaramálum sé í framvarðasveit flokksins. Löng reynsla sín af því að starfa í þágu almennings sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður veiti honum einnig sýn á mannlífið og þekkingu á högum fólks sem sé dýrmætt vegarnesti inn í stjórnmálin.

Vernharð hefur verið virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum. Hann tók þátt í prófkjöri vegna þingkosninganna 2003 og hefur átt sæti í fjölskyldunefnd Sjálfstæðisflokksins frá sama tíma og gegnt þar formennsku síðastliðin tvö ár. Vernharð á einnig sæti í fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.

Hann varð húsasmíðameistari frá meistaraskólanum í Reykjavík 1987 en hefur verið starfsmaður Slökkviliðs Reykjavíkur og SHS síðan 1988. Hann hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir félaga sína og aflað sér margvíslegrar starfsmenntunar, meðal annars sem bráðatæknir frá háskólanum í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Vernharð varð fyrsti formaður alþjóðadeildar NAEMT, stærstu samtaka sjúkraflutningamanna í Bandaríkjunum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×