Innlent

Lækkun matvöruverðs í sjónmáli

Forsætisráðherra tilkynnti í stefnuræðu sinni tillögur til lækkunar matvöruverðs.
Forsætisráðherra tilkynnti í stefnuræðu sinni tillögur til lækkunar matvöruverðs. MYND/SJÓ

Verið er að leggja lokahönd á tillögur sem leiða til verulegrar lækkunar á matvælaverði þannig að verðið verði sambærilegt við það sem gerist á Norðurlöndunum. . Þetta sagði forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í gærkvöldi. Tillögurnar verða kynntar á næstu dögum.

Geir H. Haarde sagði að vegna traustra stöðu ríkissjóðs hefði skapast svigrúm til lækkunar matarverðs.

Þrátt fyrir að forsætisráðherra hafi ekki útlistað nánar hvenær tillögurnar verða kynntar. sagði Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, þess ekki langt að bíða.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, lagði áherslu á að breytingarnar yrðu til hagsbóta fyrir alla þjóðina.

Geir Haarde sagði aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að sporna við þenslu vera að skila árangri og því óhætt að fella úr gildi fyrri ákvörðun um að setja ekki af stað ný útboð á framkvæmdum. „Þar með verður haldið áfram með þær samgöngubætur, sem hafa verið undirbúnar að undanförnu sem og aðrar framkvæmdir," sagði Geir. Jafnframt upplýsti hann að ríkisstjórnin myndi leggja til við Alþingi að þegar í stað yrði ráðist í sérstakt átak til úrbóta á umferðaræðum út frá Reykjavík, þar sem orðið hafa mörg alvarleg slys á undanförnum árum.

Í ræðunni stiklaði Geir á stóru. Hann rakti nýjungar á vettvangi alþjóðamála, fjallaði um nýlegan samning við eldri borgara og aukna þátttöku útlendinga í atvinnumálum.

Hann staldraði nokkuð við efnahagsmálin og stöðu þjóðarbúsins og sagði óumdeilt að skattalækkanir hefðu skilað sér ríkulega til heimilanna auk þess sem kaupmáttur hefði vaxið allt kjörtímabilið.

Um umhverfismál sagði Geir ríkisstjórnina sem fyrr myndu leggja áherslu á umhverfisvernd, jafnframt sem hann sagði að í sínum huga væri sjálfsagt að þjóðin hagnýtti sér auðlindir sínar.

Þá boðaði hann frumvarp um heilbrigðisþjónustu þar sem styrktar verða heimildir til að fela öðrum en opinbera heilbrigðiskerfinu að annast heilbrigðisþjónustu.

Geir fór einnig yfir nýgerðan varnarsamning við Bandaríkjamenn og kom fram í máli hans að varnarþáttur samningsins væri ekki frágenginn. „Munu ríkin hafa náið pólitískt samráð um frekari útfærslu hins nýja samstarfs," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í sinni fyrstu stefnuræðu á Alþingi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×