Erlent

Forsetakosningar endurteknar í Brasilíu

Kona gengur framhjá kosningaplakati Lula da Silva í Brasilíu
Kona gengur framhjá kosningaplakati Lula da Silva í Brasilíu MYND/AP
Forseta Brasilíu, Lula da Silva, tókst ekki að tryggja sér hreinan meirihluta í kosningum sem fóru fram um helgina og verður gengið aftur til kosninga í lok október. Lula tryggði sér 49% atkvæða nú, en þarf yfir 50% til að ná kosningu. Keppinautur hans um forsetastólinn er Geraldo Alckmin, fyrrum ríkisstjóri Sao Paulo, fékk 41% atkvæða. Hann nýtti sér ásakanir um spillingu og hneykslismál sem tengjast embættismönnum í stjórn forsetans.

Í forsetatíð Lula hefur efnahagur styrkst, laun hafa hækkað og velferðarkerfið eflst og hefur forsetinn þess vegna notið mikilla vinsælda hjá fátækum og verkamönnum.

Kannanir framan af kosningabaráttunni sýndu að Lula var með nokkuð forskot, en eftir að uppgötvaðist að starfsmenn framboðs hans reyndu að kaupa upplýsingar til að koma höggi á Alckmin fór að halla undir fæti.

Hneykslis-og mútumál hafa sett mark sitt á síðustu tvö ár valdatíma Lula og hafa nokkrir háttsettir embættismenn sagt af sér vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×