Innlent

Á leið heim frá Tel Aviv

Íslenskur ríkisborgari af palestínskum ættum, sem var í haldi lögreglu á flugvellinum í Tel Aviv í Ísrael fram eftir degi, er væntanlegur til Lundúna í kvöld án vegabréfs. Íslenska utanríkisráðuneytið segir allt verða gert fyrir manninn og honum veitt sérstakt vegabréf gerist þess þörf.

Abraham Shwaiki lenti á flugvellinum í Tel Aviv klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma. Hann lagði af stað frá Íslandi í gær og millilenti í Lundúnum. Hann ætlaði að heimsækja ættingja sína, þar á meðal veikan föður í Ísrael. Abraham, öðru nafni Ibrahim, hefur búið á Íslandi frá árinu 1990 og er íslenskur ríkisborgari.

Við komuna til Ísrael var hann kallaður til yfirheyrslu hjá flugvallaryfirvöldum. Síminn var fljótlega tekinn af honum ásamt öðru en áður hafði hann náð símasambandi við konu sína.

Hann hafi í fyrstu ekki fengið að vita hvers vegna hann var tekinn höndum.

Síðan hafi honum verið sagt að nafnbreytinging úr Ibrahim í Abraham, samkvæmt íslenskum nafnalögum, vekti grunsemdir. Auk þess væri fæðingarstaður tilgreindur Jerúsalem en ekki Ísrael. Vegabréfið væri því talið falsað.

Í stað þess að setja fæðingarstaðinn Ísrael í vegabréfið var ákveðið að setja Jerúsalem og það taka Ísraelar ekki gilt.

Það sama hefur verið gert í vegabréfi Faraj, bróður Abrahams. Þar er fæðingarstaðurinn tilgreindur sem Jerúsalem.

Að sögn Díönnu er eiginmaður hennar nú á leið með flugvél British Airways frá Tel Aviv til Lundúna og mun þaðan fljúga með vél Icelandair hingað til lands.

Hann er að sögn án vegabréfs. Þær upplýingar fengust hjá Pétri Ásgeirssyni, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu að starfsmaður íslenska sendiráðsins í Lundúnum myndi taka á móti Abraham við komuna þangað og veita honum alla þá aðstoð sem hann þyrfti, þar á meðal sérstakt vegabréf reynist rétt að vegabréf hans hafi verið ógilt við komuna til Tel Aviv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×