Erlent

Búast við samþykki Ísraelsstjórnar

Frá ríkisstjórnarfundi í Ísrael. Ehud Olmert forsætisráðherra er í miðið til hægri en Tzipi Livni, utanríkisráðherra, er önnur frá vinstri.
Frá ríkisstjórnarfundi í Ísrael. Ehud Olmert forsætisráðherra er í miðið til hægri en Tzipi Livni, utanríkisráðherra, er önnur frá vinstri. MYND/AP
Fastlega er gert ráð fyrir því að ísraelska stjórnin fallist formlega á ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé í Líbanon á reglubundnum ráðherrafundi í dag.

Um þrjátíu þúsund ísraelskir hermenn eru í mikilli sókn í Líbanon þó aðeins nokkrar klukkustundir séu þangað til gert er ráð fyrir að vopnahlé taki gildi. Í gær féllu 24 ísraelskir hermenn í átökunum, en fleiri hafa ekki fallið á einum sólarhring síðan stríðið hófst. Búist er við að Ísraelar hætti hernaðaraðgerðum klukkan fimm í nótt, að íslenskum tíma, sem gefur herjum þeirra tækifæri til að hreiðra um sig á því svæði sem þeir hafa þegar lagt undir sig.

Ráðherrar sem fréttamenn ræddu við í morgun sögðu að ekki væri ætlunin að gera frekari árásir fram að gildistöku vopnahlésins. Peretz varnarmálaráðherra segir að öllu máli skipti að svæðið í Líbanon næst landamærunum við Ísrael verði laust við hisbolla skæruliða. Til að tryggja það þurfi ísraelskir hermenn að koma sér fyrir á stöðum þar sem þeir geti varið sig.

Stjórnvöld í Líbanon féllust á ályktun Öryggisráðsins í gær og hisbolla samtökin sömuleiðis. Blóðsúthellingum hefur þó ekki linnt. Í morgun lét sjötugur Ísraeli lífið þegar flugskeyti hisbolla lenti á húsi í norðanverðu Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×