Innlent

Sjósundgarpur býr sig undir Ermarsundið

Sjósundkappinn og listamaðurinn Benedikt Lafleur lauk fyrsta hluta af þreksundi sínu í kringum Reykjavík í dag. Hann synti frá Bryggjuhverfinu í morgun og kom í land í Örfirisey um hádegisbil.

Að sögn Benedikts gekk sundið vel, fyrir utan að hann lenti í straumi við Örfirisey og sjórinn var ögn kaldari en hann bjóst við, eða rétt um 12 gráður á köflum. Benedikt leggur af stað í annan áfangann í kvöld en þá syndir hann fyrir Seltjarnarnesið, sem er erfiðasti áfanginn. Sundinu lýkur svo í Nauthólsvík á morgun.

Benedikt segist ekki vera með neinar sérstakar tiktúrur til að verja sig gegn kuldanum, heldur komi kuldaþolið mest með æfingunni en hann syndir í sjónum helst tvisvar til þrisvar í viku allt árið.

Þetta hringsund um Reykjavík er einnig æfing fyrir annað þreksund sem Benedikt stefnir á en það er að synda yfir Ermarsund. Hann er skráður í hóp sundkappa sem ætla að synda yfir Ermarsundið frá 30. ágúst til 5. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×