Innlent

Fjölmargir sækja um veiðikort eftir fréttir af ráðherra

Fjölmargir hafa vaknað upp við vondan draum eftir fréttir af ólöglegum lundaveiðum sjávarútvegsráðherra og var síminn hjá Umhverfisstofnun rauðglóandi í gær og dag þar sem fólk er að sækja um veiðikort. Atvikið hefur sömuleiðis leitt til þess að eftirlitsmenn eru farnir að grennslast fyrir um stöðu mála hjá fólki í umdæmum þeirra.

Við sögðum frá því í gær að Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra ætti yfir höfði sér kæru vegna ólöglegra lundaveiða í Grímsey á Steingrímsfirði fyrr í sumar. Athæfi ráðherrans virðist þó ekki algjörlega neikvætt.

Sigurður Örn Guðleifsson, lögmaður Umhverfisstofnunar, segir að það jákvæða við fréttina sé að fjölmargir hafi haft samband við Umhverfisstofnun til þess að verða sér úti um veiðikort. Þá hafi sýslumenn, sem sinni eftirliti með veiðikortum, haft samband við stofnunina og spurst fyrir um veiðikort aðila í umdæmum þeirra.

Menn þurfa veiðikort til allra veiða á villtum spendýrum og fuglum öðrum en músum, rottum og minkum. Brot á reglunum getur varðað sektum, varðhaldi eða fangelsi en Sigurður segir sektargreiðslum aðallega beitt.

Þegar menn fá veiðikort frá Umhverfisstofnun þurfa þeir að skila inn veiðiskýrslum. Þær eru nýttar í gagnagrunn stofnunarinnar og út frá upplýsingu þar er veiðunum stjórnað.

Sigurður vill ekki leggja mat á það hvort eftirlit með veiðum sé nægjanlegt en telur veiðikortakerfið hafa reynst vel. Menn þurfi að skila veiðiskýrslum ef þeir hafi veiðikort og þær upplýsingar fari í gagnabanka stofnunarinnar. Flestir séu með veiðikort og menn skili almennt veiðikortum inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×