Innlent

Búskap hætt á Hrafnseyri

Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar, er komin í röð eyðijarða. Þetta fyrrum höfuðból var mannlaust í vetur, í fyrsta sinn frá landnámi. Þar er þó reynt að halda uppi öflugri starfsemi um sumartímann, en það nýjasta er að bjóða upp á háskólanám.

Vegleg húsakynni standa á Hrafnseyri. Þarna bjó hins vegar bjó enginn í vetur. Hallgrímur Sveinsson, sem var staðarhaldari í yfir 40 ár, hætti í fyrrahaust en hann var jafnframt síðast bóndinn á Hrafnseyri. Hann segir að Hrafnseyri fái nú sömu örlög og aðrir bæir á svæðinu. Enginn sé til að taka við búskapnum.

Hrafnseyri var löngu fyrir tíð Jóns Sigurðssonar orðið landsþekkt höfuból og þess oft getið í fornum sögum. Jörðin hét upphaflega Eyri en síðar kennd við stórhöfðingjann Hrafn Sveinbjarnarson, sem var fyrsti lærði læknir á Íslandi.

Mikil verðmæti eru á Hrafnseyri. Gamla skólahúsið hýsir safn Jóns Sigurðssonar, þar er minningarkapella, þarna er endurgerður burstabærinn sem Jón fæddist í þann 17. júní 1811 og 120 ára gömul timburkirkja er einnig á staðnum. Valdimar J. Halldórsson er nýr staðarhaldari en er þar aðeins hluta úr ári.

Þarna er opið frá 1. júní til 25. ágúst. Auk þess að skoða safnið og gömlu kirkjuna býðst fólki að kaupa veitingar í burstabænum. Og í síðasta mánuði var í fyrsta sinn boðið upp á háskólanám á Hrafnseyri. Í samvinnu við háskólasetrið á Vestfjörðum var rekinn samnorrænn sumarháskóli í sýningagerð með íslenskum og erlendum fyrirlesurum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×