Innlent

Tap vegna Straumsvíkur hálfur milljarður

Landsvirkjun verður að líkindum af um hálfum milljarði króna í sölutekjum frá álverinu í Straumsvík vegna óhappsins á dögunum. Stjórn fyrirtækisins felldi í dag tillögur um að svipta leyndinni af orkusölusamningunum til Alcoa.

Óhappið í álverinu í Straumsvík veldur nokkru tekjutapi hjá Landsvirkjun. Miðað við framleiðslutap uppá 20 þúsund áltonn tapast sala á um 300 gígavattsstundum, að sögn Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjuanr. Þetta eru innan við 5% af orkusölu Landsvirkjunar en talsverð stærð engu að síður - er t.d. notun Akureyrarbæjar á rafmagni í 2 og hálft ár. Þorsteinn vill ekki segja hvað Landsvirkjun tapar í krónum og aurum. Orkusölusamningurinn er leyndarmál. Ef miðað er við að verðið á megawattsstundinni er 20-25 dollarar þýðir þetta tekjutap uppá 450 til 550 milljónir króna.

En það er ekki bara leynd á samningi við Alcan því alls ekki má gefa upp orkusölusamninginn við Alcoa. Tillaga þar um var felld í stjórn Landsvirkjunar í dag. Sagði Friðik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar að loknum stjórnarfundi að verðið væri að líkindum nærri 30$ á megawattsstund ef salan væri farin af stað í dag. Miðar hann þá við álverð á heimsmarkaði sem er mjög hátt um þessar mundir.

Nýverið sagði stjórnarformaður Alcoa, Alain Belda í viðtali við tímarit í Brasillíu að fyrirtækið væri að greiða 30 dollara fyrir megavattsstundina í Brasilíu en helmingi lægra verð á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×