Innlent

Hefur heyrt að starfsfólki hafi verið hótað

Trúnaðarmaður starfsfólks Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli hefur heyrt að erlendum starfsmönnum hafi verið hótað brottvísun úr landi ef þeir tækju þátt í mótmælaaðgerðum starfsfólksins í dag. Litlar tafir urðu á millilandaflugi frá Keflavíkurflugvelli í morgun þrátt fyrir aðgerðir starfsfólks Flugþjónustunnnar.

Starfsmennirnir boðuðu að þeir myndu leggja niður vinnu klukkan fimm í morgun, á háannatíma, til að mótmæla kjörum sínum og vinnuaðstæðum. Ekki var um skipulegar aðgerðir að ræða og því erfitt að sjá það fyrirfram hversu margir myndu taka þátt. Yfirmenn Flugþjónustunnar og Icelandair, sem er móðurfyrirtæki Flugþjónustunnar, mættu tímanlega og byrjuðu að skipuleggja hvernig þeir gætu komið í veg fyrir að aðgerðirnar myndu valda töfum.

Starfsmennirnir fóru svo að týnast inn í komusal flugstöðvarinnar upp úr fimm og lögðu margir niður störf. Tafir urðu þó ekki verulegar en fóru mestar upp í klukkutíma.

Samkvæmt heimildum NFS var nokkrum erlendum starfsmönnum hótað af yfirmönnum sínum bæði uppsögn og að verða vísað úr landi ef þeir tækju þátt í aðgerðunum. Trúnaðarmaður starfsmanna segir að hann hafi heyrt þetta en geti þó ekki tjáð sig um málið.

Gunnar Olsen, framkvæmdastjóri Flugþjónustunnar, segir ekkert hæft í þessum ásökunum og vísar þeim algjörlega á bug.

Um sjö leytið í morgun kallaði forstjóri Icelandair fulltrúa hópsins á sinn fund. Starfsmennirnir voru ánægðir með þann fund og ætla að hitta hann aftur síðar í vikunni til að reyna að finna lausn á deilunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×