Innlent

Mótmæltu byggingu Kárahnjúkavirkjunar

Tvö til þrjú hundruð manns komu saman á Austurvelli á sama tíma og hornsteinn var lagður að Kárahnjúkavirkjun til að mótmæla byggingu hennar.

Nokkur fjöldi fólks kom saman á Austurvelli til að mótmæla því sem margir þeirra telja mestu náttúruspjöll Íslandssögunnar. Ungir tónlistarmenn fluttu íslensk og Margrét Vilhjálmsdóttir leikkona las upp ljóðið Bræðrabýli eftir Stephan G. Stephansson auk þess sem hún lýsti skoðun sinni á framkvæmdunum og viðbrögðum við þeim.

Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður las upp skilaboðin frá virkjanaandstæðingum sem verða í hornsteininum að stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar. Þar er framkvæmdin fordæmd sem mestu náttúruspjöll sem framin hafa verið hérlendis.

En er ekki borin von úr þessu að virkjunin verði ekki að raunveruleika? Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur og einn skipuleggjenda mótmælanna, segir alveg ljóst að Landsvirkjun hætti ekki við virkjunina. Það væri ekki nema náttúruöflin tækju í taumana að ekkert yrði af virkjuninni, sagði hún og vísaði til þess að það væri sól og blíða hjá mótmælendum í Reykjavík en leiðindaveður fyrir austan þar sem hornsteinn væri lagður að stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×