Innlent

Uppgjör Marel undir væntingum

Marel skilaði uppgjöri fyrir fyrsta fjórðung ársins í dag. Í tilkynningu frá félaginu segir að tekjur félagsins voru aðeins hærri en spá Greiningardeildar gerði ráð fyrir. Tekjurnar námu samtals 32,7 m. evra en spá okkar hljóðaði upp á 28,5 m. evra. EBITDA félagsins er mun lægri en spá okkar gerði ráð fyrir. Spá okkar hljóðaði upp á 3 m. evra en niðurstaðan var 1,9 m. evrur.

Helstu ástæður þessa mismunar eru hærri gjaldfærslur vegna flutnings Carnitech frá Danmörku til Slóvakíu. EBITDA framlegð félagsins á fjórðungnum var því aðeins 5,8% en spá okkar gerði ráð fyrir 10,5% framlegð. Afskriftir eru nokkuð í línu við okkar spá, en þar sem EBITDA er mun lægri en spá okkar þá fylgir EBIT þar á eftir. Samtals er EBIT félagsins 0,5 m. evrur en spá okkar gerði ráð fyrir um 1,5 m. evrum. Fjármagnsliðir eru jákvæðir fyrir félagið á fjórðunginum og lagar það heildarafkomu félagsins sem skilar hagnaði upp á 0,6 m. evra en spá okkar gerði ráð fyrir 0,8 m. evrum í hagnað.

Bjartari framtíðarhorfur

Fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar með uppgjörinu að verkefnastaða í upphafi annars fjórðungs sé sú besta sem félagið hefur séð. Þá hefur íslenska krónan veikst mikið í upphafi ársins, og mun það hafa mjög jákvæð áhrif á framlegð félagsins. Marel hefur gefið það út að 5% breyting í gengi krónunnar þýði 1% breytingu í EBIT framlegð félagsins. Þó ber að hafa í huga að einn fjórðungur er stuttur tími hjá félagi eins og Marel og er því líklegt að veiking krónunnar muni ekki skila sér að fullu fyrr en á seinni helmingi ársins. Þá er flutningi Carnitech til Slóvakíu að ljúka og því líkur á að sú hagræðing sem þeir flutningar gefa möguleika á muni hafa jákvæð áhrif fyrir félagið á seinni hluta ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×