Innlent

Fjármálaráðherra Svartfjallalands kynnir sér íslenskt efnahagslíf

Igor Luksic, fjármálaráðherra Svartfjallalands, kom í dag í stutta heimsókn til Íslands. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna sér íslenska efnahagslífið og þær breytingar sem það hefur gengið í gegnum á síðustu árum.

Luksic fundaði með Árna M. Mathiesen, fjámálaráðherra, en þeir fóru yfir efnahagsmálin hér á landi og fjármál ríkisins. Igor Luksic kynnti Árna þær umbætur sem gerðar hafa verið á efnahagskerfi Svartfjallalands. Landið er í ríkjassambandi við Serbíu en hvort ríkið um sig sér um stjórn sinna efnahagsmála og þau hafa ekki sama gjaldmiðil. Íbúar Svartfjallalands munu á næstunni ákveða hvort að ríkið segi sig alfarið úr ríkjasambandi við Serbíu. Ráðherrarnir undirrituðu yfirlýsingu um aukið samstarf landanna á sviði ríkisfjármála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×