Innlent

Vegstyttingu framhjá Blönduósi hafnað

Umhverfisráðherra hefur fallist á sjónarmið Austur-Húnvetninga um að hafna einhverri arðbærustu framkvæmd sem völ er á hérlendis; þrettán kílómetra styttingu hringvegarins fram hjá Blönduósi. Einkahlutafélagið Leið hefur hins vegar óskað eftir umhverfismati til að fá að leggja veginn sem einkaframkvæmd.

Þessi vegstytting er með allra hagkvæmustu framkvæmdum sem fyrirfinnast í landinu, samkvæmt nýlegri úttekt Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri fyrir Leið ehf. Það félag beitti undirbjó jarðveginn fyrir vegagerð um Arnkötludal á Vestfjörðum en tilgangur þess er að beita sér fyrir einkafjármögnun samgöngumannvirkja.

Félagið vill nú ráðast í nýtt verkefni og hefur sent Skipulagsstofnun drög að tillögu að mati á umhverfisáhrifum nýs 16 km langs vegar sem félagið nefnir Húnavallabraut, en hann myndi liggja frá Stóru-Giljá og þvert inn í miðjan Langadal með nýrri brú á Blöndu. Samkvæmt úttekt Háskólans á Akureyri er samfélagslegur ábati þessarar styttingar metinn á 2,6 milljarða króna og arðsemi verkefnisins 27 prósent.

Við gerð svæðisskipulags Austur-Húnavatnssýslu óskaði Vegagerðin eftir því í febrúar í fyrra að nýtt vegarstæði hringvegarins þarna yrði sett inn á skipulag. Sameiginleg nefnd sveitarfélaga á svæðinu hafnaði þeirri ósk með þeim orðum að það væri samdóma álit heimamanna að lega hringvegar væri á allan hátt farsælust fyrir héraðið um Blönduós þar sem Blönduós væri aðalþjónustukjarni og miðstöð héraðsins. Töldu Austur-Húnvetningar raunar heppilegra að hringvegurinn yrði í framtíðinni lagður norður fyrir Blönduós, um Þverárfjall, Sauðárkrók, Hjaltadal og um jarðgöng yfir í Barkárdal og þaðan til Akureyrar. Synjun Austur-Húnvetninga á nýju vegarstæði framhjá Blönduósi fór fyrir Skipulagsstofnun, sem afgreiddi hana án athugasemda til Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra. Þann 23. mars síðastliðinn staðfesti ráðherrann nýtt svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu sem gildir til ársins 2016 þar sem ekki er gert ráð fyrir vegstyttingu. Skipulagsstofnun á hins vegar enn eftir að afgreiða ósk Leiðar ehf. um að vegurinn verði settur í umhverfismat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×