Innlent

Bresku hermannatjaldi slegið upp í Nauthólsvík

Listinni eru engin takmörk sett og það á einnig við um staðsetningu. Breskt hermannatjald er að rísa í Nauthólsvík en það mun hýsa nýja leiksýningu sem frumsýnd verður bráðlega.

Það er leikhópurinn fröken Emilía sem setur upp tjaldið og leiksýninguna sem þar verður sýnd. Leikritið sem ber heitið 100 ára hús og fjallar um aldraða á elliheimili og sjálfsmynd þeirra, en elliglöp eru farin að hrjá marga hinna öldruðu. Leiksviðið, eða sýningartjaldið öllu heldur, er breskt hermannatjald úr síðari heimsstyrjöldinni sem var notað sem sjúkratjald. Tjaldið var keypt af breska hernum og kom með Reykjafossi til landsins í morgun. Það vafðist örlítið fyrir mannskapnum hvernig átti að tjalda tjaldinu enda ekki á hverjum degi sem tjald sem þetta er sett upp hér á landi.

Leikritið verður frumsýnt 30. apríl og verða aðeins sýndar nokkrar sýningar. Það mun ekki væsa um leikhúsgesti því á leiksýningum verður boðið upp á ullarteppi og heitt kakó fyrir kulvísa. Hafliði Arngrímsson leikstýrir sýningunni en með aðalhlutverk fara Ólafur Egill Egilsson, Harpa Arnardóttir, Laufey Elíasdóttir, Björn Thors og Jón Páll Eyjólfsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×