Innlent

Ekki talið að boðið verði upp á launahækkanir

Álfheiður Bjarnadóttir, talskona ófaglærðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
Álfheiður Bjarnadóttir, talskona ófaglærðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Mynd/Vilhelm

Fyrsti formlegi samningafundurinn milli Eflingar og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu vegna starfsfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum, verður í dag. Ekki er talið að boðið verði upp á tilteknar launahækkanir á fundinum en vonir standa þó til að kjaradeila ófaglærðra leysist áður en til aðgerða kemur í næstu viku.

Jóhann Árnason, stjórnarformaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og framkvæmdarstjóri hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar í Kópavogi, telur að engin tilboð verði lögð fyrir á fundinum í dag. Hann segir að þar sem þetta sé fyrsti formlegi samningafundurinn þá verði farið yfir stöðuna og möguleikar til hækkunar launa verði skoðaðir.

Fyrir Páska samþykktu ófaglærðir beiðni forstöðumanna dvalar- og hjúkrunarheimilanna um að fresta öllum aðgerðum til 27. apríl. Ef kjaradeilan leysist ekki fyrir þann tíma þá gæti komið til viku langs setuverkfalls eða fjöldauppsagna ófaglærðra. Jóhann segir erfitt að eiga við vikulangt seturverkfall og fjöldauppsagnir myndu hafa enn verri afleiðingar. Hann segir að það sé því óskandi að samningar náist fyrir þann tíma.

Álfheiður Bjarnadóttir, talskona ófaglærðra, segir að fólk sé reitt og að til fjöldauppsagna komi ef kjaradeilan leysist ekki fljótlega. Hún segir að ófaglærðir vilji sjá aðgerðir til en ef til þeirra kemur ekki, þá muni margir segja upp störfum. Sjálf segist hún ákveðin í að segja starfi sínu lausu ef kjaradeilan leysist ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×