Innlent

Viðbygging við stjórnarráðið

Hugmyndir eru uppi um að stækka Stjórnarráðshúsið svo um munar, með byggingu sex hæða húss á milli Bankastrætis og Hverfisgötu.

Stjórnarráðhúsið, sem stendur við Lækjargötu, er eitt af merkustu húsum íslenskrar byggingarsögu. Húsið hefur þó fyrir löngu sprengt utan af sér starfsemi stjórnarráðs Íslands og meira en helmingur starfseminnar er í leiguhúsnæði við Hverfisgötu. Nú standa menn frammi fyrir þeirri ákvörðun að framlengja þá leigusamninga, kaupa húsin við Hverfisgötu eða byggja.

Í skipulagstillögum Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir 2ja hæða bílageymslu og allt að fjögurra hæða húsi á bílaplaninu aftan við tjórnarráðið.

Nú er verið er að vinna deiliskipulag þar sem þessi möguleiki er skoðaður enn frekar. Ef ákveðið verður að byggja myndi viðbygging rísa við húsið sem stendur við Hverfisgötu 4 og yrði aðliggjandi við lágreista húsið, sem stendur við Bankastræti 3 sem er frá því fyrir aldamótin 1900, hlaðið úr höggnu grjóti og nýuppgert eftir kúnstarinnar reglum.

Forstöðumaður húsafriðunarnefndar, Magnús Skúlason, hafði ekki heyrt af þessum áætlunum, en telur þær vandasamar og viðkæmar. Þegar reistar séu nýjar byggingar í gamalli byggð þurfi sérstaklega að huga að útliti, hæð og mælikvarða.

Þrátt fyrir að málið sé enn á frumstigi hefur arkitekt á vegum forsætisráðuneytisins haft það til skoðunar, eða sá hinn sami og hannaði viðbyggingu Alþingishússins.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×