Innlent

Engin böll á annan í páskum

Stórir dansleikir, sem siður var að halda á aðfaranótt annars í páskum, heyra sögunni til. Þetta kemur til af því að aðfaranótt páskadags er ekki jafnheilög og hún var. Nú má veita áfengi til klukkan þrjú allar nætur páskafrísins nema á föstudaginn langa og því dreifist dansgleði landsmanna meira en áður.

Páskarnir og aðrar hátíðir eru ekki jafnheilagar og áður hvað varðar opnunartíma verslana og veitingahúsa. Vínveitingastaðir eru opnir öll kvöld í páskafríinu og því safnast skemmtiþörfin ekki eins upp og áður þegar dansþyrst fólk flykktist á ball eina kvöldið í páskafríinu sem var opið..

Stórböll á annan í páskum heyra sögunni til, allavega frétti NFS ekki af neinu slíku við snögga athugun. Húnaver, Ýdalir, Njálsbúð, Logaland, - þessi nöfn vekja upp margar minningar, en þær eru fæstar nýjar. Það telst orðið til tíðinda að það séu böll á þessum stöðum, jafnvel á sumrin. Engar nýlegar myndir fundust í myndasafni af neinum þessara staða enda hefur ímynd þeirra breyst. Húnaver sem var þekkt fyrir villt partí um verslunarmannahelgi, er núna markaðssett sem "rólegur og fallegur staður".

Lögreglan í Reykjavík segir að rólegt hafi verið í miðbænum í nótt enda margir sem hafi lagt leið sína út úr bænum: í sumarbústaði, skíðaferðir, sem og til útlanda. Varðstjóri sagði páskahelgina jafnvel slá út mestu ferðahelgar sumarsins. Hann vildi þó ekki spá um hvort kvöldið í kvöld yrði jafnrólegt og gærkvöldið og sagðist spyrja að leikslokum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×