Innlent

Kosningadúsa

Dúsa uppí kjósendur, segir oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar um nýsamþykktar tillögur meirihluta Sjálfstæðismanna um afslátt á fasteigna- og leikskólagjöldum og hækkun á niðurgreiðslum til dagforeldra. Sjálfstæðismenn hafi áður hafnað álíka tillögum frá Samfylkingunni.

Eins og NFS hefur skýrt frá samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar fyrir þremur dögum tillögu meirihluta Sjálfstæðismanna um að veita íbúum 15 prósenta afslátt af fasteignagjöldum, 20 prósenta afslátt af leikskólagjöldum og um 20 prósenta hækkun á framlagi bæjarins til foreldra með börn í daggæslu. Áætlaður kostnaður vegna þessa er samtals 62 milljónir. Oddviti Samfylkingarinnar, Jónas Sigurðsson, segist sjálfur hafa sett fram álíka tillögur í fjárhagáætlun fyrir árið 2006 en þá hafi meirihluti sjálfstæðismanna fellt þá tillögu. Eina sýnilega ástæða sinnaskiptanna nú væru kosningar yfirvofandi.

Þá segir Jónas að hin óvænta tillaga Sjálfstæðismanna nú þýði að rekstrarniðurstaða bæjarins verði 50 milljónir í mínus. Einnig bendir hann á að málflutningur bæjarstjóra bendi til að þessar breytingar séu eingöngu hugsaðar fyrir árið 2006 og óvíst hvað við taki í framhaldinu. Framsóknarmenn taka í sama streng. Segja þeir í fréttatilkynningu að með lækkun þessara gjalda sé meirihlutinn að viðurkenna að hann hafi oftekið gjöld á barnafjölskyldur í bænum.

Bæjarstjórinn, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, segir hins vegar þetta framlag bæjarins til þess fallið að bæjarbúar fái notið þess stöðugleika sem skapast hafi í rekstri sveitarfélagsins. Hún hafnar því að fjárhagsniðurstaða ársins verði neikvæð fyrir vikið. Samþykktin gildi út árið enda vill núverandi meirihluti ekki binda hendur nýs meirihluta í vor.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×