Innlent

Tveggja vélsleðamanna leitað

Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna leitar nú tveggja vélsleðamanna sem ætluðu í stutta ferð á Langjökul í gær, en hafa ekki skilað sér. Sleðar mannanna fundust laust fyrir klukkan átta í morgun í Hallmundarhrauni, en mennirnir voru hvergi sjáanlegir. Þeir fóru úr Skorradal í gær í vélsleðaferð á jökulinn og ætluðu að vera komnir aftur til byggða um kvöldmatarleytið. Þegar ekkert spurðist til þeirra var björgunarlið kallað út og hófst leit að þeim upp úr miðnætti. Fjölmennt björgunarsveitarlið tekur þátt í leitinni, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar og flugvél Flugmálastjórnar taka einnig þátt. Veður til leitar er gott, en veðurspáin er hins vegar ekki góð. Sem fyrr segir fundust sleðar mannanna í Hallmundarhrauni laust fyrir klukkan átta í morgun, sem bendir til að þeir hafi komist ofan af jöklinum. Þar er snjólétt og því ekki hægt að fara um á sleða. Flugvél Flugmálastjórnar fór á ný frá Reykjavík til leitar á níunda tímanum, en þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið á svæðinu í alla nótt og tekur eldsneyti þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×