Innlent

Brýn þörf er á að hægt sé að fara í hópmálsókn

Neytendasamtökin segja að málið vegna samráðs olíufélaganna sýni að brýn þörf sé á því að hægt sé að fara í hópmálsókn hér á landi. Þau segja að möguleikar neytenda á að fá bætur frá fyrirtækjum séu mun minni hér á landi en annars staðar, vegna þessa.

Þegar upp komst um ólöglegt samráð olíufélaganna tilkynntu Neytendasamtökin að þau hygðust stuðla að því að fólk sem orðið hefði fyrir tjóni vegna samráðsins næði fram rétti sínum. Óskað var eftir nótum og reikningum yfir viðskipti við olíufélögin og um 100 manns urðu við kallinu.

Á Íslandi er staðan sú að úrræðið hópmálsókn er ekki til. Það er mikið notað erlendis þegar hópur fólks gerir skaðabótakröfu á hendur tilteknum aðila og hefði komið sér mjög vel fyrir neytendur í olíumálinu. Þá er gerð ein krafa fyrir allan hópinn í stað þess að hver og einn leggi fram kröfu eins og hér tíðkast. Það er flókið í sniðum og hentar ekki þeim hópi fólks sem leitaði með bensínnóturnar sínar til Neytendasamtakanna.

Neytendasamtökin telja óásættanlegt að íslenskir neytendur skuli lenda í þessari stöðu og miður að stjórnvöld hafi lítð sem ekkert skoðað að taka upp úrræðið hópmálsókn, enda sýni olíumálið að á því sé brýn þörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×