Innlent

Verðmunur á bensínlítra allt að 13 krónur

MYND/Vilhelm

Allt að sex hundruð króna verðmununur var á því í morgun að fylla bensíngeymi á meðal fólksbíl, eftir því hvar bensínið var keypt og verðmunur á lítra fór upp í þrettán krónur. Hækkandi bensínverð hefur lyft verðbólgunni yfir fimm prósent, samkvæmt nýrri vísitölu neysluverðs.

Það eykur svo vaxtabirði heimilanna þannig að bensínhækkunin sækir að hag heimilanna úr öllum áttum. Ekki liggur fyrir aö olíufélögin séu að lækka álagninguna þannig að þau hagnast af þessum erlendu hækkunum og sömuleiðis ríkissjóður, en rösklega helmingur af andvirði hvers bensínlítra rennur í ríkissjóð.

Olís og Skeljungur hafa ekki enn tilkynnt um hækkun eftir hækkun Essó um þrjár krónur og 60 aura á lítrann í gær, en fastlega er búist við að þau hækki verð í dag. Hjá Essó kostar lítrinn með fullri þjónustu tæpar 128 krónur og hefur aldrei verið dýrari í krónum talið. Lægsta mögulega verð í morgun var tæpar 115 krónur til þeirra sem greiða bensín fyrirfram hja OB og Orkunni, sem eru dótturfélög Olís og Skeljungs, og innan við krónu dýrara hjá lykilhöfum Atlantsolíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×