Innlent

Stjórmálaflokkar koma til með að slá met í auglýsingum

MYND/Róbert

 

Búist er við því að stjórnmálaflokkar hér á landi slái met í útgjöldum til auglýsinga fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Þjóðahreyfingin hefur skorað á alla stjórnmálaflokka að auglýsa ekki í ljósvakamiðlum fyrir komandi kosningar til að knýja á um að lög eða samkomulag verði gert um auglýsingar stjórnmálaflokka.

Bréf þessa efnis hefur verið sent á formenn allra stjórnmálaflokka hér á landi. Í bréfinu segir að sífellt sé meira fé varið í pólitískar auglýsingar fyrir kosningar. Þjóðarhreyfingin telur að þetta hafi í för með sér augljósar hættur og sé til þess fallið að grafa undan lýðræðinu og trú kjósenda á stjórnmálum og stjórnmálaflokkum. Hans Kristján Árnason, einn af forsvarsmönnum Þjóðarhreyfingarinnar, segir Ísland eina landið í Evrópu sem hvorki hafi lög né flokkarnir sjálfir gert samkomulag um hvernig staðið skuli að auglýsingum í ljósvakamiðlum. Í Bretlandi sé hámark á því hvað hver flokkur geti notað af fjármagni í auglýsingar fyrir þingkosningar. Ef sama hlutfall væri notað hér á landi þá væri hámark á hvern flokk 12 milljónir. Hans segir stjórnmálaflokka á Íslandi nota mun meiri upphæðir í auglýsingar. Þetta komi niður á innihaldi málefna og auglýsingar fari að snúast um ímyndir en málefnin verði undir. Hans segir ljóst að erfitt sé fyrir fólk sem ekki hefur mikið fjármagn að koma sínu á framfæri.

Hans segir erfitt að átta sig á hver viðbrögð flokkanna verði við áskoruninni. Ástæða þess að því sé eingöngu beint til stjórnmálaflokka að auglýsa ekki í ljósvakamiðlum sé sú að þar sé um takmörkuð gæði að ræða. Það eru ekki allir sem geti rekið sjónvarpsstöð þar sem það sé leyfum háð en annað gildi til dæmis um dagblöð. Þjóðarhreyfingin vonast til að breyting verði á núverandi fyrirkomulagi. Jafnframt að þessi áskorun verði til þess að vekja almenning í landinu til umhugsunar um fjármál flokkanna og velta betur fyrir sér þeim auglýsingum sem birtast og hvaðan fjármagnið fyrir þeim kemur. Á fundinum kom fram að búist sé við því að öll met verði slegin í kostnaði við auglýsingar stjórnmálaflokkanna í ár. Hans segir mikilvægt að þeir sem beri ábyrgð á flokkunum komi sér saman um reglur varðandi auglýsingar því með núverandi fyrirkomulagi sé verið að grafa undan lýðræðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×