Innlent

Kirkjukrytur í Reykjanesbæ

Yfirgnæfandi meirihluti kosningabærra manna í Reykjanesbæ hefur óskað eftir því að Sigfús B. Ingvason verði sóknarprestur í Keflavíkursókn. Málið er nú í höndum kirkjumálaráðherra.

Meirihluti valnefndar Keflavíkurkirkju samþykkti að velja séra Skúla Ólafsson sem næsta sóknarprest í kallinu. Valnefndin gekk framhjá séra Sigfúsi B. Ingvassyni sem gegnt hefur prestsembætti í byggðinni undanfarin 13 ár. Biskup Íslands hefur ákveðið að fara að vilja meirihlutans. Það er svo í höndum kirkjumálaráðherra að skipa í embættið til fimm ára. Það að gengið var framhjá séra Sigfúsi hefur kveikt óánægjubál í Reykjanesbæ. Nú síðdegis höfðu vel yfir 4 þúsund manns skrifað undir lista á netinu þar sem skorað er á valnefnd að breyta afstöðu sinni. Það er yfirgnæfandi meirihluti kjörbærra manna í byggðinni. Meðlimir valnefndarinnar óskuðu ekki að tjá sig við NFS en einn þeirra sagðist þó vona að þessi ákvörðun yrði ekki til þess að flæma séra Sigfús úr byggðinni. Bæjarbúar voru hins vegar ófeimnir við að tjá sig. Virtust þeir sem NFS ræddi við einróma um að Sigfús ætti að fá starfið.

Falur Harðarsson er einn forsprakka söfnunar undirskrifta er miða að því að fá ákvörðuninni hnekkt. Hann og stuðningsmenn hafa einnig sent kirkjumálaráðherra bréf í sömu erindagjörðum.

Ekki náðist í ráðherra kirkjumála Björn Bjarnason í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×