Innlent

Hafísinn þokast nær landi

Hafístunga er aðeins um tuttugu sjómílur norðaustur af Straumnesi. Ísinn þekur ýmis fiskimið úti af Vestfjörðum en lokar ennþá engum siglingaleiðum.

Landhelgisgæslan fór í ískönnunarflug í dag og kortið sýnir niðurstöður þess. Ísbreiðan hefur ekki mikið hreyfst frá því í síðustu viku en nú hefur myndast ísnes sem teygir sig í átt að Straumnesi.

Ísröndin er ekki mjög laus í sér, ekki er mikið um staka borgarísjaka, heldur er ísbreiðan því sem næst samfrosin. Páll Geirdal, yfirstýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, sagði erfitt að spá fyrir um hvort ísinn myndi þokast nær landi, það væri allt komið undir vindátt og straumi.

Samkvæmt upplýsingum frá Sigurði Ragnarssyni, veðurfræðingi, verða norðlægar áttir ríkjandi fram yfir páska auk þess sem meginhafstraumar eru af norðan. Það er því ekki óhugsandi að hafísinn teygi sig eitthvað nær landi á næstu dögum.

Hafís nær nú þegar suður fyrir Hvarf á Grænlandi og teygir sig sífellt lengra upp eftir Vesturströnd Grænlands. Þetta gerist yfirleitt ekki fyrr en seinna á vorin og því er óvenju mikill ís fyrir Grænlandi miðað við árstíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×