Innlent

Horfir fram á annasama daga á næstunni

Tuttugu og átta ára þriggja barna faðir úr höfuðborginni, Snorri Snorrason, var í gærkvöld valinn þriðja Idol-stjarna Íslands í Smáralind. Hvíti kóngurinn, eins og hann er kallaður, tekur sigrinum með stóískri ró en sér fram á langa og annasama daga næstu vikurnar.

Það var rafmagnað andrúmsloft í Smáralindinni í gærkvöld skömmu áður en tilkynnt var um hver yrði næsta Idol-stjarna Íslands, Reykvíkingurinn Snorri Snorrason eða Húsavíkurmærin Ína Valgerður Pétursdóttir.

Alls bárust tæplega 116 þúsund atkvæði í símakosningu í gærkvöld og hlaut Snorri 55 prósent þeirra en Ína 45. Og þrátt fyrir að síðustu vikur og mánuðir hafi verið annasamir hjá Snorra fæst enginn tími til að slaka á strax því næstu dagar og vikur fara í viðtöl, samningagerð og tónleika, en Snorri hefur þegar verið bókaður á nokkrum stöðum á landinu.

Aðspurður hvernig hann hafi metið möguleika sína þegar hann skráði sig til leiks í Idolinu segir Snorri að hann hafi í upphafi stefnt að því að komast í Smáralindina en erfitt hafi verið að spá í framhaldið þar sem hann vissi ekki við hverja var að etja. Í Smáralind hafi hann tekið einn þátt fyrir í einu.

Líf Snorra mun án efa breytast tölvuert við sigurinn en hann segir að sjálfur muni hann ekkert breytast enda er þarna rólegur og yfirvegaður maður á ferð eins og komið hefur fram í Idol-þáttunum. Snorri vonast engu að síður til þess að hann nái að geta sér gott orð í íslenskum tónlistarlífi á næstu misserum. Til þess hafi hann skráð sig í keppnina. Aðspurður segist hann farinn að spá í hvernig plötu hann vilji gera en hún verði að sjálfsögðu unnin í samvinnu við Einar Bárðarson og Senu, sem gefur hana út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×