Innlent

Áfengisneysla heldur áfram að aukast

Áfengisneysla Íslendinga heldur áfram að aukast og þá sér í lagi dagdrykkja. Æ fleiri í aldurhópnum 40 ára og eldri koma til áfengismeðferðar á Vogi vegna dagdrykkju.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tölulegum upplýsingum SÁÁ um ástandið í vímuefnamálum árið 2005. Heildarinnlögnum sjúklinga hefur fækkað lítillega frá árinu 2004. Skýringin á færri innlögnum er meðal annars sú að árið 2005 dróg úr úr meðferðarstarfinu vegna rekstrarfjárskorts og bráðamóttökunni var lokað. Þjónustusamningur milli SÁÁ og heilbrigðisráðuneytisins rann út um síðustu áramót.

Áfengisneysla heldur einnig áfram að aukast en hún hefur aukist jaft og þétt á síðustu árum. Tæplega tíu prósent allra karla 15 ára og eldri hafa komið inn á Vog og tæp fjögur prósent kvenna í sama aldurshópi. Það eru þó góð tíðindi að fjölda nýrra sjúklinga í aldurshópnum 24 ára og yngri, það er þeir sem eru að koma í fyrsta sinn, hefur fækkað frá árinu áður. Fjöldi vímuefnafíkla heldur áfram að aukast en frá árinu 1994 hefur vímuefnafíklum sem koma til meðferðar fjölgað, úr rúmum 18% upp í rúm 48% af heildarfjölda sjúklinga.

Daglegar kanabisreykningar eru meginvandi sjúklinga 19 ára og yngri. Neysla örvandi fíkniefna er meginástæða þess að sjúklingar á þrítugsaldri koma til meðferðar. Nú er svo komið að um 70% kvennkyns sjúklinga á aldrinum 20-30 ára koma vegna neyslu þessara efna og tæp 65% karlmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×