Innlent

Skert þjónusta á tíu dvalarheimilum

Hrafnista í Reykjavík
Hrafnista í Reykjavík MYND/Vísir

Á annað þúsund íbúar á dvalarheimilum fá skerta þjónustu í dag þar sem ófaglærðir starfsmenn heimilanna eru í tveggja daga setuverkfalli. Starfsmennirnir segja laun sín óviðunandi og eru ósáttir við það sem þeir kalla skeytingarleysi ráðamanna.

Starfsmenn tíu dvalarheimila taka þátt í aðgerðunum en heimilin eru Hrafnista í Reykjavík og Hafnarfirði, Grund, Vífilsstaðir, Víðines, Sunnuhlíð, Skógarbær, Dvalarheimilið Ás í Hveragerði, Sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum og Eir.

Þetta er í annað sinn á um viku sem starfmennirnir fara í setuverkfall til þess að mótmæla lágum launum. Þeir vilja fá laun til jafns við starfsmenn í sambærilegum störfum hjá Reykjavíkurborg. Laun starfsmannanna eru á bilinu 105 til 130 þúsund á mánuði. En þeir sem vinna sambærileg störf hjá Reykjavíkurborg eru með um 20-30% hærri laun.

Tveggja sólarhringaverkfall starfsmannanna hófst á miðnætti og fá íbúar skerta þjónustu á meðan á því stendur.

Álfheiður Bjarnadóttir, talsmaður starfsmannanna, segir þá ósátta við skeytingarleysi ráðamanna í málinu. Þeir ætla að afhenda ráðherrum í ríkisstjórnini undirskriftarlista nú klukkan eitt frá starfsmönnum þar sem þess er krafist að þeir geri eitthvað í launamuninum.

Þegar fréttamaður NFS leit við á Hrafnistu í dag var frekar rólegt um að litast. Þeir íbúar sem rætt var við í söguðst styðja aðgerðir starfmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×