Innlent

Samkeppniseftirlitið hafnar kröfu Og Vodafone

Samkeppniseftirlitið hefur tekið undir sjónarmið Símans og hafnað kröfu Og Vodafone, dótturfélags fjölmiðlarisans Dagsbrúnar, í kvörtunarmáli gegn Símanum.  Málavextir eru þeir að Og Vodafone kvartaði til Samkeppnisstofnunar yfir tilboði Símans til GSM áskrifenda á Akranesi. Í erindinu ásakaði Og Vodafone Símann fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu í farsímaþjónustu. Og Vodafone hafði boðið viðskiptavinum sínum kynningartilboð sem m.a. fól í sér að þeir greiða ekkert mínútugjald fyrir símtöl sín á milli Síminn mætti tilboði keppinautarins á hóflegan hátt með ámóta tilboði. 

Sjónarmið Símans eru þau að félaginu sé heimilt að taka virkan þátt í samkeppni á farsímamarkaði. Að mati Samkeppniseftirlitsins var tilboðið ekki til þess fallið að raska samkeppni á fjarskiptamarkaði.

“Niðurstaðan er mikilvæg fyrir neytendur í farsímaþjónustu. Einokunarverðlagning Og Vodafone á heildsölustigi kemur hins vegar í veg fyrir að neytendur fái notið raunverulegra kjarabóta í símtölum milli kerfa. Viðskiptavinir Símans eru í raun að niðurgreiða óhagkvæman rekstur Vodafone vegna þess að heildsöluverð Vodafone eru allt að 50% hærri en heildsöluverð Símans.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur talið  þennan verðmun óæskilegan. Síðan eru liðin tæp þrjú ár og enn kemst Vodafone upp með þessa einokunarverðlagningu” segir Páll Ásgrímsson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Símans.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×