Innlent

Náttúruminjasafn Íslands eitt þriggja höfuðsafna

MYND/Stefan

Náttúruminjasafn Íslands verður eitt þriggja höfuðsafna á Íslandi ásamt Þjóðminjasafninu og Listasafni Íslands nái nýtt frumvarp menntamálaráðherra þar að lútandi fram að ganga. Í framhaldinu stendur svo til að finna Náttúrugripasafninu nýjan stað.

Menntamálaráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn nýtt frumvarp til laga um Náttúruminjasafn Íslands sem ætlað er að verða höfuðsafn á sviði náttúrufræða í samræmi við ákvæði safnalaga. Saga Náttúruminjasafnsins, sem margir þekkja sem Náttúrugripasafnið og er nú staðsett við Hlemm, nær aftur til ársins 1884. Það hefur heyrt undir Náttúrufræðistofnun Íslands og þar með umhverfisráðuneytið frá því að ráðuneytið var stofnað árið 1990 en með nýju lögunum er ætlunin að skilja á milli Náttúrufræðistofnunar og safnsins og færa safnið undir menntamálaráðuneytið eins og önnur söfn.

Í frumvarpinu er hlutverk Náttúruminjasafns Íslands skilgreint og gerð grein fyrir skipulagi þess og yfirstjórn. Auk þess að vera eitt þriggja höfuðsafna ásamt Þjóðminjasafninu og Listasafni Íslands er Náttúruminjasafninu einnig ætlað rannsóknarhlutverk í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands sem verður vísindalegur og faglegur bakhjarl safnsins.

Enn fremur er ætlunin að koma á fót góðu safni um náttúru Íslands en Náttúrugripasafnið hefur verið í bráðabirgðahúsnæði við Hlemm í allmörg ár. Á nýjum stað vonast menn til að geta sýnt fjölmarga gripi sem nú eru í geymslu. Hins vegar er ekki búið að finna húsnæðið og segir aðstoðarmaður menntamálaráðherra að rétt hafi verið talið að leita samþykkis á hinum nýju lögum áður en Náttúruminjasafninu verði fundinn staður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×