Innlent

Höfundur Draumalandsins stendur við ummælin

Höfundur Draumalandsins dregur ekkert í land, þótt Alcoa kalli hann ósannindamann. Alcoa sé umsvifamikill þáttakandi í hönnun og þróun á stríðsvélum, ekki aðeins venjulegur hráefnisframleiðandi. "Alcoa framleiðir til dæmis Tomahawk eldflaugarnar, Bradley skriðdreka sem eru svona allra ljótustu djöflarnir sem við sjáum í Íraksmyndunum. Við erum hluti af mjög stóru og grimmu samhengi," segir Andri Snær sem skrifaði bók sína til að stinga á kýlum í samfélaginu.

Ummæli Andra Snæs fóru fyrir brjóstið á forsvarsmönnum Alcoa, sem eru að reisa álver á Austurlandi. Í yfirlýsingu frá Alcoa sagði meðal annars: "Alcoa framleiðir einstaka hluti úr áli sem m.a. eru notaðir við smíði á Tomahawk flugskeytinu." Og: "Með sömu rökum og Andri Snær hefur notað má halda því fram að allir þeir framleiðendur plasts, stáls, gúmmís, hjólbarða, véla og vélahluta, sem selja vörur sínar til vopnaframleiðslu séu þar með vopnaframleiðendur. Slíkt er fjarstæðukennt."

En Andra Snæ finnst það hreint ekki fjarstæðukennt. Hann bendir á að markaðsstjóri Alcoa hafi haustið 2004 sagt á vefsíðu félagsins að allur áliðnaðurinn vinni hörðum höndum að því að útvega málm í varnarbrynjur fyrir Hummer herbíla. Þar hafi einnig komið fram að starfsmenn Alcoa leggi sig í framkróka við að afgreiða pantanir úr verksmiðjunum til að styðja bandarísku hermennina. Í fyrrasumar hafi Pittsburgh Tribune-Review greint frá samningi Alcoa við bandarísk stjórnvöld um þróun herbíla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×