Innlent

Ráðherrar sagðir pukrast

MYND/Valgarður Gíslason

Stjórnarliðar voru sakaðir um pukur á Alþingi í dag vegna umræðu um brotthvarf varnarliðsins. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, sagði þá hafa hannað atburðarásina á miðvikudag þegar tilkynnt var um ákvörðun Bandaríkjamanna að kalla herinn á brott. Því neitaði forsætisráðherra.

Undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir sté Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í ræðustól í dag og vildi ræða stöðu varnarmála hvað varðar ákvörðun Bandaríkjamanna að draga úr starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þingmaður spurði um hvernig stjórnvöld hér hefðu frétt af ákvörðun Bandaríkjamanna. Spurt væri í ljósi atburða 2003 þegar Bandaríkjamenn ætluðu að kalla þotur og þyrlur héðan en þeirri ákvörðun var frestað.

Forsætisráðherra sagði að stjórnvöld hefðu frétt af ákvörðuninni á miðvikudag. Össur sagðist þá trúa orðum forsætisráðherra en vitnaði til ummæla Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra, í þættinum Sjálfstætt fólk á Stöð 2 í gær. Þar var hann spurður hvort óþægilegt væri að fá þessar fréttir af varnarliðinu í þann mund sem hann var að koma frá Noregi.

Þar sagði utanríkisráðherra að fréttirnar væru óskemmtilegar en hann hefði átt von á símtali frá bandarískum stjórnvöldum á miðvikudag. Forsætisráðherra svaraði því til að vissulega hefði utanríkisráðherra átt von á símtalinu en ekki vitað hvers efnis það væri fyrr en því lauk.

Össur sagði að sér sýndist að um hannaða atburðarás væri að ræða en því neitaði forsætisráðherra. Ákvörðun Bandaríkjamann hefði ekki komið á óvart því lengi hefði verið vitað að hugur þeirra stefndi í þessa átt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×