Innlent

Hóteluppbygging geti skapað á annað hundrað störf

MYND/GVA

Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum eru einhuga um að taka á þeim málum sem upp koma í framhaldi af því varnarliðið dregur mikið úr starfsemi sinni á næstu mánuðum með tilheyrandi uppsögnum. Bæjarstjórinn í Grindavík bendir á að hægt sé að ráðast í byggingu hótels við Bláa lóðin sem skapað geti á annað hundrað störf.

Fulltrúar í Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum funduðu í morgun um þá stöðu sem upp er kominn eftir að tilkynnt var að Bandaríkjastjórn hygðist fjarlægja héðan bæði orrustuþotur og björgunarþyrlur og draga verulega úr starfseminni í varnarstöðinni fyrir septemberlok. Sveitarstjórnarmenn lýsa áhyggjum af ástandinu en leggja áherslu á að nýta verði þau tækifæri sem felist í mannvirkjum og landssvæði sem herinn hefur hingað til haft til umráða.

Þá fögnuðu fundarmenn þeirri hugmynd forsætisráðherra að skipa sérstaka samráðsnefnd ríkis og sveitarstjórna á Suðurnesjum sem vinna mun að viðbrögðum við brotthvarfi flutgsveita varnarliðsins og voru fulltrúar sveitarfélaganna skipaðir á fundinum.

Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, sem sat fundinn, segir hann hafa verið góðan og að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum hafi verið einhuga um að bregðast við þeim málum sem upp komi vegna brottflutnings stórs hluta varnarliðsins. Það muni ekki standa á sveitarfélögunum í þeirri samstarfsnefnd sem forsætisráðherra hafi lagt til að skipuð yrði.

Sveitarstjórnarmenn leggja áherslu á að bregðast hratt við þeim atvinnuvanda sem upp kemur vegna uppsagnanna hjá hernum en áhrifanna gætir víða á Suðurnesjum, ekki bara í Reykjanesbæ. En menn sjá mörg tækifæri í stöðunni sem upp er komin. Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík, bendir á að hægt sé að ráðast í byggingu hótels við Bláa lónið tiltölulega fljótt en það geti skapað á annað hundrað störf. Hann sjá einnig fjölgmörg önnur tækifæri sem rædd verði á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×