Innlent

Boðar til fundar stuttu fyrir fund forsætisráðherra

MYND/Teitur

Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ boðar til almenns fundar um atvinnumál í dag, þremur klukkustundum á undan forsætisráðherra.

Borgarfundur Halldórs Ásgrímssonar með íslenskum starfsmönnum varnarliðsins og öllum öðrum þeim sem hafa hagsmuna að gæta, verður í kvöld klukkan átta í Stapanum. Til stóð að halda fundinn á kosningaskrifstofu A-listans, lista Samfylkingarinnar, Framsóknar og óháðra. Sjálfstæðismenn gagnrýndu þetta og töldu ekki eðlilegt að fundurinn væri haldinn á kosningaskrifstofunni. Framsóknarmenn bentu á móti á að fundurinn væri haldinn af Framsóknarfélaginu í Reykjanesbæ og því ekkert óeðlilegt við fundarstaðinn. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að færa fundinn í Stapann en Stapinn rúmar mun fleira fólk.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sem jafnframt er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur nú ákveðið að boða starfsmenn Keflavíkurflugvallar á samráðs- og upplýsingafund klukkan korter yfir fimm í dag. Tæpum þremur tímum fyrir fund Halldórs. Fundur Árna verður haldinn í íþróttahúsinu við Sunnubraut en þar mun hann ræða aðgerðir vegna breytts varnarsamnings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×