Innlent

Spá áframhaldandi hárri verðbólgu

Verðbólgan helst há næstu mánuði og mun ef eitthvað er aukast frá því sem nú er. Þetta er meðal þess sem má lesa úr umsögnum greiningardeilda bankanna um nýjustu verðbólgumælingar.

Verðbólgan mælist nú 4,5 prósent og er yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans 23. mánuðinn í röð. Ekki nóg með það heldur hefur verðbólgan verið yfir efri þolmörkum bankans í sjö mánuði samfleytt. Og það er ekki útlit fyrir að þetta breytist ef marka má spár greiningardeilda KB banka og Íslandsbanka.

Greiningardeild KB banka hefur litla trú á að verðbólga fari minnkandi á næstunni. Þvert á móti segja starfsmenn hennar allar líkur á að verðbólguhraðinn fari vaxandi á næstu mánuðum enda hafi dregið mjög úr líkum á að verðbólgan fari undir þolmörk Seðlabankans.

Í umsögn Greiningardeildar Íslandsbanka segir svo að fátt bendi til að verðbólgan minnki á næstu mánuðum.

Það er helst að Greiningardeild Landsbankans dragi úr spám um mikla verðbólgu. Þar spá menn því að vísitala neysluverðs hækki minna í næstu mælingu en þeirri síðustu. Næsta verðbólguspá bankans birtist í næstu viku og þá kemur í ljós hvort þeir verði á sömu skoðun og greiningardeildir hinna bankanna eða ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×