Innlent

RÚV gangrýnt fyrir að standa sig ekki í fréttaflutningi af skjálftanum

Jarðskjálftinn við Kleifarvatn náði inn á Alþingi í dag en Ríkisútvarpið var gagnrýnt fyrir að rjúfa ekki útsendingu til að flytja fréttir af skjálftanum.

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sat á skrifstofu sinni þegar skjálftinn varð og fann vel fyrir honum. Hann reyndi strax að leita sér upplýsinga um skjálftann. Magnús sagðist hafa athugað bæði með Ríkisútvarpið og Ríkissjónvarpið hvort einhverjar fréttir væri þar að finna en en svo var ekki.

Ríkismiðlarnir, bæði útvarp og sjónvarp, voru harðlega gagnrýndir eftir Suðurlandsskjálftann 17. júní 2000 fyrir að bregðast seint og illa við þegar skjálftinn varð. Þannig var knattspyrnuleikur látinn hafa forgang í Ríkissjónvarpinu. Fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar rauf hins vegar útsendingu og var fyrr á ferðinni með fréttir af jarðskjálftanum. Magnús gagnrýndi Ríkisútvarpið fyrir að sinna ekki öryggishlutverki sínu sem skyldi. Það hafi verið NFS sem hafi fyrst flutt fréttir af skjálftanum um korteri eftir að skjálftinn varð.

Magnús spurði forsætisráðherra, á Alþingi í dag, hvort ekki væri aðgerðaráætlun í gangi um hvað eigi að gera til að koma upplýsingum til almennings þegar svona gerist. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, hafði sjálfur ekki heyrt af skjálftanum. Hann sagði að ef tilefni þyki til þá láti almannavarnir hann strax vita. Hér hafi ekki verið um slíkt atvik að ræða en hefði svo verið þá hefði Ríkisútvarpið strax brugðist við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×