Innlent

Ekkert tjón af völdum skjálftans

Snarpur jarðskjálfti, 4,6 á Richter, varð austur af Krísuvík um klukkan hálf þrjú í dag. Jarðskjálftinn varð á mjög virku svæði, um 3 kílómetra austur af Kleifarvatni eða um 7,7 kílómetra austnorðaustur af Krísuvík, á rúmlega sjö kílómetra dýpi. Nokkuð af eftirskjálftum hefur fylgt í kjölfarið.

 

Svæðið á Reykjanesinu þar sem skjálftinn varð í dag, er eitt af allra virkustu jarðskjálftasvæðum landsins. Svæðið er sérstakt að því leiti að þar eru bæði gosbelti og flekaskil. Norður-Ameríku og Evrasíuflekinn mætast þarna og Ísland gliðnar að meðaltali á flekamótunum um einn sentimetra á ári. Gliðnunin verður hins vegar í stærri stökkum, með tilheyrandi jarðskjálftavirkni.

 

Ekki er hægt að leggja neitt út af jarðskjálftanum í dag um hugsanlegar jarðhræringar á svæðinu, né hinu að varðskjálfti af svipaðri stærð varð norður undan landinu í gær í hafinu nálægt Grímsey.

 

Jarðskjálftar eru enda algegnir á báðum þessum stöðum. Á Reykjanesinu verða þeir hins vegar aldrei mjög stórir, fara sjaldan yfir fimm á Richter, þótt söguleg dæmi séu um stærri skjálfta. Um 1930 varð til dæmis skjáfti við Kleifarvatn sem var vel yfir sex á Richter.

 

Jarðskjálftinn í dag fannst víða um suðvestanvert landið. Vel á öllu höfuðborgarsvæðinu, upp í Hvalfjörð og allt austur á Hvolsvöll. Hvorki er þó vitað um tjón á mannvirkjum né fólki.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×