Innlent

Kópavogur brátt bær turnanna

Kópavogur
Kópavogur MYND/Vísir

Framkvæmdir eru hafnar við hæsta hús á Íslandi á Smáratorgi. Búið er að samþykkja annað verslunarháhýsi hinu megin við götuna og umsókn fyrir það þriðja liggur fyrir. Oddviti minnihlutans í Kópavogi telur gatnakerfi Kópavogs engan veginn í stakk búið til að taka við þeirri umferð sem fylgir háhýsunum.

Í síðustu viku var fyrsta skóflustungan tekin að tuttugu hæða skrifstofubyggingu sem á að rísa á suðvesturhluta lóðar Smáratorgs. Húsið verður hæsta hús Íslands eða tæpir 78 metrar á hæð en Hallgrímskirkjuturn er um 74 metrar á hæð. Byggingin verður tuttugu hæðir en átján hæðir verða undir skrifstofur. Gera má ráð fyrir að nokkur þúsund manns komi til með að starfa í byggingunni.

Áformað er að reisa fleiri byggingar á Smárasvæðinu í Kópavogi. Flosi Eiríksson, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, segir að gefið hafi verið leyfi fyrir 15 hæða turn norðan við Smáralindina. Hjá bænum sé síðan umsókn um byggingu tuttugu og tveggja til tuttugu og þriggja hæða turn sunnan við Smáralindina. Flosi segir mikið byggt á svæðinu og ljóst sé að umferðarkerfið beri það engan veginn.

Flosi segir að hafa þurfi í huga að skrifstofubyggingar dragi að sér meiri umferð en annað atvinnuhúsnæði. Það skipti máli fyrir íbúa svæðisins hversu mikil umferð er á svæðinu, hver loftmengun er og hávaðamengun. Íbúar mótmæltu byggingu turnhúsins á Smáratorgi á sínum tíma en komið var að nokkru leyti til móts við kröfur íbúa þá. Flosi segir hins vegar ekkert hafað verið hlustað á mótmæli íbúa vegna turnsins við Smáralindina. Flosi segir Kópavogsbæ þurfa að gera ýmsar breytingar á gatnakerfinu á svæðinu til að koma til móts við aukningu umferðar með byggingunum en nauðsynlegt sé að breikka meginæðar kerfisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×