Innlent

Þorkell Þorkelsson á bestu mynd ársins

Blaðaljósmyndarafélag Íslands verðlaunaði félaga sína fyrir vel unnin störf í Gerðarsafni í Kópavogi í dag þar sem sýning á bestu ljósmyndum síðasta árs var opnuð. Þorkell Þorkelsson tók mynd ársins og Ragnar Axelsson á fréttamynd ársins.

Fjöldi fólks var á opnun sýningarinnar en sýningin hófst með verðlaunaafhendingu og veitt voru verðlaun fyrir bestu myndirnar í níu flokkum. Mynd Þorkels sem er ljósmyndari á Morgunblaðinu, úr myndaröð hans um aðstæður fólks í löndum við Indlandshaf eftir að flóðbylgjan reið þar yfir í árslok 2004, var valin mynd ársins og þá hlaut Þorkell einnig verðlaun fyrir myndaröðina. Ragnar, sem einnig er ljósmyndari á Morgunblaðinu, hlaut verðlaun fyrir fréttamynd ársins sem sýnir Davíð Oddsson kveðja á landsfundi sjálfstæðismanna fyrr í vetur. Alls eru um 230 ljósmyndir á sýningunni sem dómnefndin valdi úr um 2000 innsendum myndum. Gunnar V. Andrésson, ljósmyndari hjá 365 prentmiðlum, opnaði einnig sýningu á neðri hæð safnsins, en þar gefur á að líta ljósmyndir frá fjörtíu ára ferli hans sem ljósmyndir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×