Innlent

Dagsbrún enn áhugasöm um Orkla Media

MYND/Hari

Eigendur Orkla Media fjölmiðlarisans eru reiðubúnir að hlusta á tilboð í félagið, að því er norskir fjölmiðlar greina frá í dag. Forstjóri Dagsbrúnar segir stjórn fyrirtækisins enn áhugasama um Orkla.

Greint var frá því fyrir nokkrum vikum að Dagsbrún, móðurfélag 365-miðla, væri að skoða möguleika á kaupum á norska fjölmiðlafyrirtækinu Orkla Media, sem rekur meðal annars dönsku blöðin Berlingske Tidene, BT og Weekendavisen. Í vikunni var svo sagt frá því að fleiri aðilar hefðu áhuga á hugsanlegum kaupum, og aukinheldur að eigendur norska blaðsins Dagbladet hafi þegar ákveðið að bjóða í Orkla.

Norska ríkisútvarpið greindi síðan frá því í dag, og vitnar þar í norska fréttavefinn NTB, að stjórn Orkla hafi ákveðið að hlusta á tilboð í samsteypuna, hvort sem er í heild sinni eða að hluta. Fram kemur í tilkynningu sem vitnað er til að áhugasömum kaupendum sé hér með boðið að bjóða í félagið.

Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar, vildi ekki veita NFS viðtal um málið í dag, enda sagði hann ekkert nýtt að frétta af hálfu fyrirtækisins. Stjórnin væri ennþá að skoða þennan möguleika og vildi ekki útiloka neitt.

Aðspurður um þær fréttir danska ríkisútvarpsins, að Dagsbrún væri að huga að blaðaútgáfu í Danmörku, sagðist Gunnar Smári hvorki getað játað því né neitað. Eins og hann hafi áður sagt hafi Dagsbrún áhuga á útrás og leiti því nú ýmissa tækifæra á erlendum fjölmiðlamarkaði.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×