Innlent

Hvað á barnið að heita?

Nöfnin Naranja og Bill eru íslensk mannanöfn en ekki Júdith og Mikhael samkvæmt ákvörðun þriggja manna nefndar, sem hefur það í hendi sér hvað Íslendingar mega og mega ekki heita.

Mannanafnanefnd hafnaði nafninu Júdith á síðasta fundi sínum, en th-endingin telst ekki vera í samræmi við almennar ritreglur. Á sömu forsendum var nafninu Mikhael hafnað, þó svo tveir núlifandi Íslendingar beri nafnið og heimilt sé að skrá það með c og h.

Nefndin gaf hins vegar grænt ljós á karlmannsnafnið Kilían á þeim forsendum að það sé annar ritháttur Nóbelsverðlaunaskáldsnafnsins Kiljans.

Þá mega drengir nú bera nafnið Tóki og sömu sögu er að segja um nafnið Bill. Nafnið Bill hefur hingað til verið algengt gælunafn í Bandaríkjunum, en tekur íslensku eignarfallsendinguna til Bills og er nú komið í mannanafnaskrá.

Drengir mega nú bera millinafnið Birgis en það telst ekki hafa unnið sér hefð sem eiginnafn eða fyrra nafn, þrátt fyrir að einn núlifandi maður beri nafnið. Birgis Jónsson gengur því ekki upp en Bill Birgis Jónsson er í lagi.

Kvenmannsnafnið Daley var samþykkt á fundi mannanafnanefndar og einnig kvenmannsnafnið Naranja. Naranja tekur íslenska eignarfallsendingu og gæti hljómað kunnuglega í eyrum einhverra, en Naranja þýðir appelsínusafi á spænsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×