Innlent

Vilja byggja upp hestaakademíu að Kjóavöllum

Frá félagssvæði Gusts í Glaðheimum í Kópavogi.
Frá félagssvæði Gusts í Glaðheimum í Kópavogi. MYND/Vilhelm

Nokkurs konar hestaakademía með hesthúsabyggð fyrir 4500-5000 hesta mun rísa á Kjóavöllum í Kópavogi ef hugmyndir bæjaryfirvalda verða að veruleika. Hugmyndirnar voru kynntar á fjölmennum fundi í félagsheimili Gusts fyrr í kvöld.

Málefni hestamannafélagsins Gusts hafa verið í nokkurri óvissu síðustu mánuði þar sem töluverð ásókn hefur verið í félagssvæði þess í Glaðheimum. Svokallaðir uppkaupsmenn hafa þegar keypt 37 prósent hesthúsa á svæðinu og þar að auki hafa bæjaryfirvöld áhuga á að byggja íbúðir í nágrenni við reiðleiðir Gustsmanna. Undanfarna viku hafa hins vegar forráðamenn félagsins fundað með bæjaryfirvöldum og unnið hratt að tillögum sem gera ráð fyrir að hestamannafélagið flytji sig úr Glaðheimum og yfir á Kjóavelli þar sem hestamannafélagið Andvari í Garðabæ hefur meðal annars aðstöðu.

Á Kjóavöllum eru nú 1400 hestar en ef hugmyndir bæjaryfirvalda verða að veruleika gæti fjöldi þeirra ríflega þrefaldast og orðið 4500-5000. Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði á fundinum að hann hefði áhuga á að koma upp nokkurs konar hestaakademíu á svæðinu, en gert er ráð fyrir bæði keppnisvelli og reiðhöll á svæðinu.

Gunnar lagði þó áherslu á að hér væru aðeins á ferðinni fyrstu drög að skipulagi á svæðinu og enn ætti eftir að ryðja ýmsum ljónum úr veginum. Garðbæingar sæktu til að mynda vatn á svæðið og nú stæðu yfir samningaviðræður við bæjaryfirvöld þar um að Kópavogur sjái Garðbæingum fyrir vatni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×