Innlent

Bankarnir haft margfalt meiri ruðningsáhrif en stóriðjuframkvæmdir

Friðrik Sophussson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að bankarnir hafi haft margfalt meiri ruðningsáhrif í efnahagslífinu en stóriðjuframkvæmdir. Hann hafnar því að virkjanir skili litlum arði og segir arðsemi Kárahnjúkavirkjunar mjög svipaða og í sambærilegum fyrirtækjum annars staðar.

Stjórnarformaður Bakkavarar sagði á Viðskiptaþingi í gær að jafnvel þótt Íslendingar yrðu stærstu álframleiðendur heims og virkjuðu alla hagkvæmustu virkjunarkosti landsins þá myndi arðsemin fyrir íslenskt samfélag aldrei verða meiri en sem nemur framlagi eins öflugs útrásarfyrirtækis.

Friðrik Sophusson segir að arðsemi eigin fjár í Kárahnjúkavirkjun, miðað við að eigið fé sé 25% í verkefninu, sé 11%. Það sé svipuð arðsemi og í sambærilegum verkefnum annarsstaðar. Þá bendir Friðrik á söguna og eldri virkjanir. Þannig sé Búrfellsvirkjun nánast afskrifuð þótt hún sé í dag afkastameiri en hún var við gangsetningu fyrir 40 árum en endist sennilega í 100 ár í viðbót. Ágreiningur eigenda Landsvirkjunar um verðmat, þar sem sumir telji fyrirtækið mun verðmætara en bókfært verð, sýni ennfremur að ávöxtun fjár í Landsvirkjun hafi verið góð.

Stóriðjuframkvæmdir eru sagðar valda ruðningsáhrifum þar sem fjármagn flæði inn í landið og haldi uppi háu gengi krónunnar. Að mati Friðriks eru það smámunir miðað við fjármagnsstreymi vegna íbúðalána bankanna og skuldabréfaútgáfu erlendra aðila, sem sé margfalt meira. Fjármálageirinn og bankarnir hafi þannig haft margfalt meiri ruðningsáhrif. Hann telur ruðningsáhrif hins vegar eðlileg og hátt gengi krónunnar stuðli að góðum lífskjörum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×